2/18 Ávarp Gunnars Snorra

Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra.

Ávarp á stórtónleikum Rotary 7. janúar 2018

Kæra Vigdís, umdæmisstjóri, kæru Rotaryfélagar og aðrir gestir.
Gleðilega hátíð og gleðilegt nýtt ár.

Það er góður siður að staldra við af og til og tileinka tiltekna daga, mánuði, ár eða áratugi ákveðnum málefnum eða hópum. Það þýðir ekki að þessi málefni eigi að falla í þagnargildi þegar dagurinn, mánuðurinn, árið eða áratugurinn er liðinn hjá. Þannig var t.d. áratugurinn 1975 til 1985 sérstaklega helgaður málefnum og réttindum kvenna innan Sameinuðu þjóðanna en eins og við vitum öll eru þau málefni ekki síður í brennidepli nú, meira en þremur áratugum síðar.

Hver einasti dagur ætti með réttu að vera dagur tónlistar en það kemur ekki í veg fyrir að tónlistin eigi sína sérstöku daga. Þannig tók franskur menntamálaráðherra, Jacques Lang, það frumkvæði 1982 að lýsa því yfir að við sumarsólstöður í júní ár hvert skyldi halda hátíð tónlistar, Fête de la Musique. Ég man það frá mínum Parísarárum þegar Vigdís forseti vor sendi honum sérstaka kveðju og tók fram að þetta væri vissulega til eftirbreytni. Kannski er ekki síður úr vegi að halda tónlistarveislu við vetrarsólstöður þegar dag tekur að lengja. Heilög Sesselja, verndardýrlingur tónlistar, á sér dag 22. nóvember og enska tónskáldið Purcell samdi af þessu tilefni dýrleg tónverk. Ég hef sjálfur haft fyrir sið að halda hátíðlega afmælisdaga minna eftirlætistónskálda og verð að viðurkenna að dagatalið er orðið harla þéttsetið því á langri ævi bætast æ fleiri tónskáld við í hópinn.

Ég fagna því mjög að Rotaryhreyfingin hafi sýnt þetta frumkvæði að hefja tónlist til vegs og virðingar einu sinni á ári og ekki er framtakið síðra fyrir þá sök að tækifærið er notað og ungir tónlistarmenn, sem skarað hafa fram úr eru styrktir til frekari afreka. Það er gaman að líta yfir það einvalalið sem fengið hafa viðurkenningu á þessum degi. Það er glæsilegur hópur. Okkar eigin síungi Jónas Ingimundarson sem nú má með réttu kalla Nestor íslenskrar tónlistar, hefur með þessu lagt sitt af mörkum til að tryggja að framtíð íslenskrar tónlistar verði björt.

Einhverjir kynnu að spyrja hvers vegna Rotary ætti sérstaklega að sinna tónlist. Því er auðsvarað. Lítum á einkunnarorð Rotary og spyrjum okkur, er nokkuð sannara og réttara en tónlist, eykur hún ekki drengskap, eflir velvild og vinarhug og er hún ekki öllum til góðs? Allir góðir Rotarymenn eiga því með réttu að vera málsvarar og merkisberar góðrar tónlistar.

Í ys og þys nútímaþjóðfélags , í streitu og kapphlaupi, fánýtu þrasi og eftirsókn eftir hjómi og vindi er andleg heilsa og velferð í voða ef ekki gefst ráðrúm til að nema staðar, njóta augnabliksins. Það er á einhvern máta innritað í genamengi okkar að vera markmiðsdrifin og keppa að einhverju takmarki. Óðar og því marki er náð tekur svo annað við. Þetta er allt góðra gjalda vert en við erum annað og meira en tæki til að ná einhverjum árangri, hver sem hann kann að vera. Það er ekki tilviljun að eitt af kjörorðum dagsins er “núvitund”. Henni má ná úti í náttúrunni, í faðmi fjölskyldunnar, við skoðun myndlistar eða lestur ljóða en hreinasta og tærasta myndbirting núvitundar er greinilega einbeitt hlustun tónlistar. Hvergi lifnar augnablikið við með sama hætti og þá. Það er þá sem spurningin vaknar ekki lengur til hvers eða hvers vegna, augnablikið sjálft er eigin réttlæting, eigin tilgangur.

Í eftirminnilegri ræðu við þetta tækifæri fyrir réttu ári síðan lauk mín ágæta vinkona og starfssystir, Sigríður Snævarr, sendiherra, orðum sínum með því að vitna í Jónas Ingimundar og sagði ” Tónlistin verður til þegar orðunum sleppir.” Þetta kallaði fram í huga minn orð heimspekingsins Wittgensteins ” Wovon man nicht sprechen kann, darüber muss man schweigen “. Það sem eigi verður með orðum tjáð geymir þögnin best.

Þetta má vissulega til sanns vegar færa en eru ekki allar heimsbókmenntirnar tilraun til að tjá með orðum eitthvað sem vart verður komið orðum að. Einn mesti orðsins snillingur á íslenska tungu Halldór Kiljan Laxness sagði í morgunhugleiðingum um Bach eftirfarandi ” Þó hefur ekki komið sá dagur yfir mig að ég efaðist um yfirburði tónlistar yfir bókmenntir í því að tjá þá opinberun sem mannshugurinn hefur af alheiminum. Ég heyri sjaldan svo vonda tónlist að hún segi mér ekki meira en talað orð; og ef það væri ekki vegna tónlistarinnar, mundi ég aldrei ljúka upp útvarpstæki-nema til að hlusta á veðurfregnirnar.” Síðar í sama texta segir, ” Þó grannt sé hlustað æ ofan í æ, og þó undrun og aðdáun þess sem hlustar verði æ því meiri sem hann hlustar lengur, þá heldur þó aðalatriðið að vera jafn óuppgötvað og það er óumræðilegt. Menn geta sosum reynt að svara í orðum , og það hefur sjálfsagt oft verið gert , en ætli flest svörin verði öllu meiri en endurtekning, að breyttu breytanda, á svörum við gömlu spurningunni: til hvers er sólin, tunglið og stjörnurnar’?”

Ef Halldóri Kiljan Laxness verður orða vant hvað getum við aumir dauðlegir  gert annað en hleypt tónlistinni að. En áður en það er gert vil ég aftur vitna til orða hans um annað sem þó á svo vel við um tónlist, ” Dáið er allt án drauma og dapur heimurinn.” Eða eins og Nietzsche lét eftir sér hafa, ” Án tónlistar væri lífið mistök.” Ég hafði ætlað mér að láta Nietzsche eiga síðasta orðið í þessum pistli en þá komu mér í hug nokkrar ljóðlínur úr síðustu bók félaga okkar Sigurðar Pálssonar, sem kvaddi okkur í ár sem leið.

Eldur og skuggar –og rödd
Sólrík glaðværð —-það er rétta innstillingin
Þannig á að berjast við blýið og myrkviðinn
Óréttlæti ofbeldi
Og allan þann langa lista
Gleymdu aldrei áhrifamestu kennurunum:
Voltaire, Mozart, Nietzsche….
Eldur og skuggar -og rödd
Berst þér til eyrna

Þakka ykkur fyrir.

 

Leave a Reply